Viðhald á WordPress

Ef þú hefur einhvern tímann verið húseigandi þá veistu að það þarf að viðhalda eigninni reglulega svo hún grotni ekki niður.
Það þarf að slá blettinn, mála veggi, skipta út ljósaperum, gömlum eldhústækjum, svo eitthvað sé nefnt. Eftir mörg ár þarf jafnvel að mála allt húsið, skipta út innréttingum, gólfum og lögnum.

Það er hægt að líkja WordPress vefsíðunni þinni við slíka eign. Ef ekkert er gert til að viðhalda kerfinu á bak við vefinn, þá grotnar hann niður með tímanum. Öryggisholur myndast þegar WordPress kerfið, viðbætur og þemu, eru ekki uppfærð.

Áður en þú veist fara sumir hlutir á vefsíðunni að bila, og í versta tilfelli nær einhver óprúttinn aðili eða yrki (bot) að brjótast inn í kerfið og valda miklum skaða.

Það er nefninlega ekki nóg bara að „henda upp síðu“ og halda að það sé búið mál. Að halda heimasíðunni uppfærðri, bæði með nýju efni og sjálfu kerfinu er ólýsanlega mikilvægt, þó svo að það síðarnefnda sé allt of algengt.

Hér eru nokkur mikilvæg atriði sem vert er að hafa í huga þegar kemur að viðhaldi á WordPress heimasíðum.

Viðhald á Wordpress
Wordpress Uppfærslur

Uppfærslur

WordPress kerfið er í stanslausri þróun og nýjar útgáfur eru gefnar út nokkrum sinnum á ári. Þegar stórar og mikilvægar kerfisuppfærslur eru gefnar út, þá þurfa höfundar viðbóta og þema einnig að uppfæra sínar vörur til þess að allt virki saman.

Best er að fylgjast vel með í umsjónarhluta WordPress sem lætur þig vita þegar nýjar uppfærslur eru í boði.

Til þess að sjá hvort það séu komnar uppfærslur skráir þú þig inn í stjórnborð sem kerfisstjóri, velur „Uppfærslur/Updates“ undir „Stjórnborð/Dashboard“ í vinstri valmynd. Þar inni getur þú uppfært bæði WordPress, viðbótir og þemur.

Sjálfvirkar uppfærslur

Í nýjustu útgáfu WordPress er hægt er að stilla flestar viðbætur til að uppfæra sig sjálfkrafa. Það er mikilvægt að virkja sjálfkrafa uppfærslur, en vert er að hafa í huga að stundum getur vefsíðan „brotnað“ ef um er að ræða stórar uppfærslur á verslunarkerfi eða þemu.

Sjálfvirkar uppfærslur fyrir Wordpress
Öryggisafrit í Wordpress

Öryggisafrit

Það er algengara en flestir halda að vefur „hrynji“ án nokkurs fyrirvara. Harðir diskar sem eru notaðir hjá hýsingarþjónustum geta bilað, og þá er síðan þín horfin, fyrir fullt og allt.

Flestir hýsingaraðilar bjóða upp á daglega afritun af vefsvæðum notenda. Ef slíkt er í boði á hýsingunni þinni, þá þarftu ekki að aðhafast frekar. Ef þú ert ekki viss um að svo sé, er best að setja sig í samband við hýsingaraðilann og spyrja nánar út í það.

Ef svo ske kynni að það sé ekki í boði, þá eru til WordPress viðbætur sem leyfa þér að setja upp regluleg öryggisafsrit af gagnagrunni og efni síðunnar.

Hérna er gott úrval af viðbótum sem hægt er að nota.

Eldveggur og vírusavörn

Vegna þeirra miklu vinsælda WordPress við heimasíðugerðar er það líka það kerfi sem verður hvað mest fyrir netárásum. Um 90% árasa á netumsjónakerfi í heiminum er beint að WordPress vefsíðum.

Mikilvægt er að gera tölvuþrjótum erfitt fyrir, þá einna helst að nota lykilorð sem erfitt er að geta upp á, uppfæra kerfið, viðbætur og þemu reglulega, og nota öryggisviðbætur. Eyddu út viðbótum og þemum sem þú notar ekki.

Öryggisviðbótin WordFence leysir þennan vanda. Hún verndar vefsíðuna þína gegn árásum og þeim aðilum sem reyna að brjótast inn í kerfið í gegnum innskráningarsíðu eða með því að spýta inn kóða sem nýtir sér öryggisholur. Viðbótin getur einnig nýst þér ef vefurinn hefur verið hakkaður. WordFence getur skannað síðuna og fundið skjöl og kóða sem tilheyra ekki WordPress kerfinu og eytt þeim.

Lesa meira um WordFence viðbótina.

Eldveggur og vírusavörn
Hraði og skyndiminni

Hraði / Hraðabestun

Hraði vefsíðunnar er mjög mikilvægur, bæði fyrir þá sem skoða síðuna og leitarvélabestun. Með tímanum er algengt að það hægist á síðunni, þá aðalega vegna nýs innihalds og of stórra mynda. Ef síðan er of lengi að hlaðast inn, þá er mjög líklegt að notandinn stoppi stutt við og komi ekki aftur. Leitarvélar eins og Google og Bing ákvarða gæði síðunnar meðal annars eftir hraða og svörunartíma, þess vegna getur hver einasta sekúnda skipt sköpum í sambandi við hversu hátt þú birtist í leitarniðurstöðum.

Nokkur atriði til að hafa í huga:

  • Passaðu að ljósmyndir séu ekki of stórar. Minnkaðu þær í þá stærð sem þú þarft þær í. Notaðu þjöppun á myndirnar, td. Tinypng.com fyrir .jpg og .png myndir.
  • Notaðu Cache viðbót til þess að búa til skyndiminni af síðunni. Það eru margar viðbótir í boði, td. Litespeed, Autoptimize, WP Fastest Cache og WP Super Cache.
  • Haltu kerfinu, viðbótum og þemum uppfærðum.
  • Notaðu SSL skírteini til að virkja https á vefnum.
  • Hafðu forsíðuna ekki of langa. Birtu ekki allann textann þinn á forsíðunni, heldur einungis útdrátt með hlekk á undirsíðu eða fréttir. Passaðu að myndir séu ekki of stórar.

Notaðu Pingdom, GTmetrix eða Google Speed Insights til þess að mæla hraðann fyrir og eftir breytingar.

Viðhald á WordPress

Ef þú ert með lágmarks tæknikunnáttu þá getur þú vel séð um að halda WordPress vefsíðunni þinni uppfærðri og öruggri. Ef þú fylgir atriðunum hér að ofan þá ætti vefurinn þinn að vera öruggur og hraður.

Ef þér vantar aðstoð við að uppfæra vefsíðuna þína, eða til þess að sjá um vefinn með reglulegu millibili, þá get ég aðstoðað.

Ef vefsíðan þín hefur verið hökkuð, þá hef ég reynslu í þeim málum líka.

Sendu mér línu ef þú vilt fá hjálp.

Ég aðstoða þig með Wordpress síðuna þína